Miðstöð íslenskra bókmennta mun í ár úthluta 51,5 milljónum króna í styrkjum til bókaútgáfu og þýðinga. Þetta er 8,5 milljónum hærra en úthlutað var í fyrra þegar 43 milljónum var veitt í sömu styrki. Í fréttatilkynningu frá Miðstöðinni segir að þetta sé gert til að bregðast við áhrifum ríkjandi ástands.
Rúmum 28 milljónum króna verður úthlutað í útgáfustyrki til 45 verka sem er 2 milljónum krónum hærra en í fyrra. Alls bárust 69 umsóknir og sótt var um rúmar 65 milljónir. Þá verður rúmum 13 milljónum króna úthlutað í 35 styrki til þýðinga á íslensku í fyrri úthlutun ársins en 50 umsóknir bárust. Það er þriggja milljóna króna hækkun á milli ára og átta fleiri verkefni verða styrkt en í fyrra. Þriðjungur styrkjanna mun fara til þýðinga barna- og ungmennabóka.
Úr Auði, barna- og ungmennabókasjóðnum, verður 10 milljónum úthlutað en þetta er annað skiptið sem úthlutað verður úr sjóðnum. Verkefni sjóðsins er að styrkja útgáfu vandaðra barna- og ungmennabóka sem skrifaðar eru á íslensku. Alls hlutu 32 verk styrki að þessu sinni.
Bækurnar sem hljóta styrki í ár eru af ýmsu tagi, langar textabækur fyrir ungmenni, myndríkar smábarnabækur og allt þar á milli.