Úthlutað var úr Nýsköpunarsjóði námsmanna á föstudaginn í fyrstu úthlutun ársins. Verkefnin sem hlutu styrki voru 74 talsins og námu styrkirnir alls 106 milljónum króna. Tæplega 190 umsóknir bárust í sjóðinn og tengjast þau mennta- og vísindastofnunum um allt land.
„Breiddin í þessum spennandi verkefnum er til marks um fjölbreytileika íslenska menntakerfisins og nýsköpunarkraftinn meðal stúdenta,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. „Verkefnin sem komast á laggirnar fyrir tilstuðlan Nýsköpunarsjóðs námsmanna geta blómstrað og breyst í stærri og viðameiri tækifæri fyrir námsmenn, fyrirtæki og stofnanir. Þannig er sjóðurinn mikilvæg brú fyrir atvinnulífið og vísindasamfélagið.“
Í styrktum verkefnum er 126 nemendur skráðir til leiks í alls 353 vinnumánuði. Í ljósi aðstæðna í samfélaginu vegna kórónuveirufaraldursins er ráðgerð aukaúthlutun úr sjóðnum sem nemur alls 300 milljónum króna vegna verkefna sem vinna á í sumar.
Nálgast má listann yfir styrkþega hér.