Það sem hefur vakið hvað mesta furðu þingmanna og almennings er hvernig múgurinn komst svo fljótt og svo auðveldlega inn í þinghúsið. Um tvö þúsund lögregluþjónar starfa á þinginu og þrátt fyrir að lengi hafi legið fyrir að umfangsmikil mótmæli myndu fara fram var lítið um tálma og lögregluþjónar voru ekki í óeirðabúnaði.
Sjá einnig: Vaktin - Fjórir látnir eftir árásina á þingið
Fólkið streymdi áfram og enginn virtist reyna að stöðva það. Myndbönd og myndir sýna einhverja af lögregluþjónunum stíga til hliðar og jafnvel taka þátt í myndatökum óeirðaseggja. Eitt myndband sem hefur verið í mikilli dreifingu virðist sýna lögregluþjóna hleypa mótmælendum í gegnum tálma og nær þinghúsinu.
CAUGHT ON VIDEO: The moment Police allow rioters to storm the US Capitol. #Washington #CapitolHill #DC #DCProtests pic.twitter.com/nxQsbNDdME
— Anthony Davis (@theanthonydavis) January 6, 2021
Þegar lögregluþjónar unnu svo að því að vísa múgnum úr þinghúsinu virtust einstaklega fáar tilraunir gerðar til að handtaka einhverja af þeim sem höfðu ruðst inn í þinghúsið og jafnvel lent í átökum við lögregluþjóna.
Í heildina voru 52 handteknir og þar af flestir fyrir að brjóta gegn útgöngubanni í Washington. Samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar voru 26 handteknir á lóð þinghússins. Fjórir dóu, þar af ein kona sem var skotin og fjórtán lögregluþjónar eru sagðir hafa særst.
Tim Ryan, þingmaður Demókrataflokksins, sagði blaðamönnum í nótt að mikil mistök hefðu verið gerð frá upphafi mótmælanna sem urðu að óreiðum.
„Ég tel það nokkuð ljóst að þó nokkrir muni missa vinnuna mjög fljótt,“ hefur Politico eftir Ryan. Hann sagði þetta skömmustulegt fyrir múginn, forsetann og lögregluna.
Viðbrögð þykja léttvæg
Viðbúnaður og viðbrögð lögreglu þykja einstaklega léttvæg þegar þau eru borin saman við viðbrögð við mótmælum og óeirðum vegna ofbeldis lögregluþjóna gegn þeldökkum Bandaríkjamönnum í fyrra. Trump neitaði beiðnum um að kalla út þjóðvarðlið Washington DC, sem heyrir undir varnarmálaráðuneytið, og þurftu starfsmenn Hvíta hússins og ráðgjafar hans að ganga á hann vegna þessa, samkvæmt heimildum New York Times.
Áður höfðu starfandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna og formaður herforingjaráðsins leitað til Mike Pence, varaforseta, og beðið hann um að heimila útkall þjóðvarðliðsins.
Í samtali við Washington Post segir Lezley McSpadden, móðir Michael Brown, sem var skotinn til bana af lögregluþjónum í Ferguson árið 2014, sem leiddi til mikilla mótmæla og stofnunar Black Lives Matter hreyfingarinnar, að viðbrögðin í gær og í nótt hafi verið allt önnur en viðbrögð við mótmælum BLM.
„Það var ekkert skotið, engar gúmmíkúlur, ekkert táragas. Við höfum ekki séð neitt svona,“ sagði hún.

Aðrir sem rætt var við og komið hafa að mótmælum síðasta árs slógu á svipaða strengi. Þá hafi táragasi og öðrum aðferðum verið beitt gegn friðsömum mótmælum en svipaðar aðgerðir hafi ekki sést í Washington.
„Við tókumst á við fólk sem leit út eins og hermenn,“ sagði Gregory McKelvey, sem kom að mótmælum í Portland. Hann segist einn af tugum sem voru barðir af þungvopnuðum útsendurum alríkisstofnana þegar þau stóðu í garði nærri alríkisdómshúsi í Portland og mótmæltu dauða George Floyd.
„Þeir voru útbúnir fyrir stríð. Þeir voru í brynvörðum faratækjum. Í dag er ég að horfa á löggur á hjólum mæta á vettvang.“