Jón Baldvin var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn Carmen Jóhannsdóttur með því að hafa strokið utanklæða og niður eftir rassi hennar þegar hún var gestur á heimili hans á Spáni í júní 2018. Samkvæmt ákærðu taldist brotið varða við ákvæði laga um kynferðislega áreitni.
Carmen steig sjálf fram og sagði frá reynslu sinni af málinu í fjölmiðlum árið 2019. Jón Baldvin greindi svo frá ákærunni í aðsendri grein í Morgunblaðinu í september í fyrra. Hann hefur ætíð neitað sök og hefur haldið því fram að atvikið á Spáni hafi verið sviðsett. Carmen krafði Jón Baldvin um eina milljón króna í miskabætur vegna málsins.

Vísir hefur úrskurð héraðsdóms undir höndum en Fréttablaðið greindi fyrst frá efni hans í dag. Þar segir að ákæruvaldið hafi byggt mál sitt á því að háttsemin sem Jóni Baldvin var gefið að sök sé refsiverð eftir spænskum lögum og vísað til tiltekinnar lagagreinar, sem sé sambærileg íslenskri lagagrein.
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari taldi hins vegar að spænska ákvæðið gæti ekki talist sambærilegt íslenska ákvæðinu. Það sé „útilokað eða a.m.k. verulegur vafi“ á því að spænska lagagreinin eigi við um meinta háttsemi Jóns Baldvins. Þar sem ekki liggi heldur fyrir gild yfirlýsing frá spænskum yfirvöldum um að háttsemin sé refsiverð samkvæmt spænskum lögum skuli Jón Baldvin njóta vafans.
Málinu verði því vísað frá dómi. Þá greiðist 917.600 króna málsvarnarlaun Vilhjálms H. Vilhjálmssonar, lögmanns Jóns Baldvins, úr ríkissjóði.
Samkvæmt upplýsingum frá embætti héraðssaksóknara er nú til skoðunar að kæra úrskurð héraðsdóms til Landsréttar.
Fréttin hefur verið uppfærð.