Parler gefur sig út fyrir að vera miðill tjáningar- og málfrelsis þar sem „alvöru skoðanaskipti“ fara fram, en þar má finna fjölmarga stuðningsmenn forsetans sem og fólk sem aðhyllist QAnon samsæriskenninguna. Samkvæmt henni er djúpríki vestanhafs sem starfar gegn Trump og starfrækir net djöfladýrkandi barnaníðinga sem stjórnar heiminum á bakvið tjöldin.
Þangað fara margir sem Twitter hefur látið loka fyrir, en í gær lá vefurinn tímabundið niðri vegna álags í kjölfar ákvörðunar Twitter um að loka á reikning Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Á meðal vinsælla notenda Parler er þingmaðurinn Ted Cruz, sem er með 4,9 milljónir fylgjenda þar, sem og Fox-stjarnan Sean Hannity sem er með sjö milljónir fylgjenda.
Google hefur nú þegar fjarlægt Parler úr Play Store hjá sér, þar sem notendur geta sótt ýmis smáforrit. Var sú ákvörðun tekin eftir að miðillinn neitaði að taka út „svívirðilegar færslur“ notenda sem gætu hvatt til ofbeldis að þeirra mati. Apple hefur einnig gefið miðlinum viðvörun og tilkynnti í gær að miðillinn hefði sólarhring til þess að grípa til aðgerða áður en hann yrði fjarlægður úr App Store.

„Valdboðssinnar sem hata tjáningafrelsið“
Beiðnir Apple og Google hafa farið illa í framkvæmdastjórann John Matze, sem kveðst ekki ætla að verða við beiðnum þeirra. „Við munum ekki láta eftir pólitískum fyrirtækjum og þeim valdboðssinnum sem hata tjáningarfrelsið!“
Í bréfi Apple til fyrirsvarsmanna Parler segir að fjölmargar kvartanir hafi borist vegna þeirra samskipta sem þar fara fram. Þá hafi margir fullyrt að miðillinn hafi verið nýttur til þess að skipuleggja og ýta frekar undir þá atburði sem urðu í Washington á miðvikudag.
„Okkar rannsókn hefur leitt í ljós að Parler er hvorki að fylgjast með né fjarlægja efni sem ýtir undir ólöglega háttsemi og setur almenning í hættu,“ sagði Apple í tilkynningu þar sem Parler var gefinn sólarhringsfrestur. „Við munum ekki bjóða upp á miðla sem innihalda hættulegar og meiðandi færslur.“
Líkt og áður sagði hefur Google nú þegar fjarlægt miðillinn úr Play Store þar sem Google gerði þá kröfu að forrit, þar sem notendur gætu sjálfir birt færslur, þyrftu að hafa einhverja yfirstjórn og úrræði til þess að fjarlægja færslur sem ekki samrýmdust notendaskilmálum.
„Í ljósi þeirrar ógnar sem steðjar að almannaöryggi um þessar mundir höfum við fjarlægt forritið úr Play Store þar til gripið verður til aðgerða.“