Kristinn Jóhannesson sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs Háskóla Íslands sagði í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun að fimm byggingar háskólans hefðu orðið fyrir tjóni þegar vatnsleiðsla sprakk ofan við Suðurgötu. „Og sumar alveg gríðarlegu tjóni,“ bætti Kristinn við.
„Úr þessu kom gríðarlegur vatnsflaumur sem flæddi inn í margar byggingar hérna. Allt frá aðalbyggingu, Háskólatorgi, Lögbergi, Gimli og inn í Árnagarð. Mest tjónið er inni á Háskólatorgi og Gimli,“ sagði Kristinn. Vatnsmagnið hefði verið „ótrúlegt“ en fram hefur komið að 500 lítrar af vatni streymdu inn í byggingarnar á sekúndu – í 75 mínútur.
Hér fyrir neðan má sjá myndband frá Arnari Halldórssyni tökumanni frá vettvangi í Háskóla Íslands í morgun.
Þá sagði Kristinn aðspurður að innréttingar og gólfefni í byggingunum væru líklega ónýt vegna lekans og nefndi einnig veggi og hurðir í því samhengi.
„Það var það mikið vatn á einhverjum stöðum að hurðir sprungu. […] Það fóru kerfi og það flæddi inn í Gimli það hátt að það fór alveg upp í rafmagnstöflur og sló öllu út. Þannig að það er enn þá rafmagnslaust.“

Þá sagði Kristinn að ágætlega hafi gengið að dæla vatninu út úr húsunum en slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur verið við störf á háskólasvæðinu síðan í nótt.
„Það gengur. Slökkviliðið kom að aðstoða okkur. Það er kannski klukkutími eða tveir eftir að dæla upp vatni,“ sagði Kristinn nú á níunda tímanum í morgun. Ljóst væri að talsverðan tíma tæki að koma öllu í samt horf á ný.
„Svo tekur við að meta og byggja upp, lagfæra. Það er búið að vera myrkur og við sjáum ekki allt enn þá.“
Öll starfsemi Háskóla Íslands á Háskólatorgi, í Gimli, Lögbergi, Árnagarði og í Aðalbyggingu mun liggja niðri að minnsta kosti til hádegis í dag vegna lekans.