Gert er ráð fyrir því að skipið verði komið til Önundarfjarðar um hádegisbil á morgun samkvæmt tilkynningu Landhelgisgæslunnar. Varðskipið Týr hefur undanfarna daga verið á Norðurlandi þar sem snjóflóðahætta hefur einnig verið.
Hættustig er vegna snjóflóðahættu á Ísafirði og Flateyri og var ákveðið að rýma fjögur íbúðarhús og eitt atvinnuhúsnæði á Flateyri í dag. Rýmingin tók gildi í kvöld.
Óvissustigi var lýst yfir á norðanverðum Vestfjörðum í gær eftir að tvö snjóflóð féllu að vegi á Eyrarhlíð og annað seinnipartinn í Seljalandshlíð í Skutulsfirði. Tvö lítil snjóflóð féllu utan við Flateyri í fyrradag og fjögur flóð hafa fallið í norðanverðum Súgandafirði, þar af þrjú í sjó samkvæmt tilkynningu Veðurstofunnar.