Þetta segir Guðni í samtali við mbl.is fyrr í kvöld. Þar greinir hann frá því að sonur sinn hafi legið í sex mínútur á botni laugarinnar og spyr hann hvar sundlaugaverðir hafi verið á þeim tíma. Hann veit þó ekki hvort sonur hans var í innilauginni eða útilauginni.
Hann skilur ekki að lögregla hafi gefið þær skýringar að veikindi hafi átt í hlut, enda hafi engin krufning farið fram. Fjölskyldan hafi ekki fengið sömu skýringar og komu fram í fjölmiðlum.
„Það kemur eitthvað fyrir og hann sekkur til botns. Í sex mínútur liggur hann, sonur minn, á botni laugarinnar,“ segir Guðni í samtali við mbl.is.
Sonur Guðna starfaði í geðþjónustu og var í sundlauginni ásamt skjólstæðingi sínum. Þeir hafi nær daglega farið í sund, en skjólstæðingurinn var sá sem greindi fjölskyldunni frá andlátinu.