Mesta atvinnuleysi á landinu á þessu og síðasta ári hefur verið á Suðurnesjum þar sem tæplega einn af hverjum fjórum hefur verið atvinnulaus síðustu mánuði. Stór hluti þeirra er af erlendum uppruna. Það jókst um 0,5 prósent á milli nóvember og desembert.
Langtímaatvinnulausum hefur fjölgað samhliða þessari þróun og hluti þeirra hefur síður nýtt sér þau úrræði sem hafa verið í boði.

„Það er fólk sem hefur verið lengi utan vinnumarkaðar og mögulega þeir sem að tala litla íslensku og hafa verið ekki mjög virkir þátttakendur í okkar samfélagi. Við ætlum að fara af stað með verkefni sem að snýr að vellíðan og virkni þess hóps, að þjálfa þau í íslensku og styðja þau í félagslegri virkni,“ segir Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir, verkefnastjóri fjölmenningarmála í Reykjanesbæ.
Hún segir mikilvægt að aðstoða þennan hóp.
„Við sjáum það alltaf betur og betur að það að upplifa sem að þú tilheyrir ekki samfélaginu það hefur gríðarlega mikil áhrif á vellíðan og samfélagsleg virkni, hún skilar sér svo margfalt miklu fleiri staði,“ segir Hilma.
Hún segir að bærinn sé að klára samninga við miðstöð Símenntunar á Suðurnesjum og í framhaldinu verði tekið á móti fyrsta hópnum í febrúar. Áætlað er að sextíu til áttatíu manns fari í gegnum úrræðið á þessu ári sem hefur fengið vinnuheitið Til vellíðunar og virkni.