Þetta er annar dagurinn í röð sem skipulögð leit fer fram að þeim félögum á vegum pakistanska hersins. Aðstæður til leitar eru erfiðar en aðeins tókst að fljúga þyrlum hersins í innan við átta þúsund metra hæð. Fjallið er 8.611 metra hátt.
Það var á fimmtudagskvöldið sem þeir félagar héldu á stað í átt að toppnum en gert var ráð fyrir að það tæki þá fimmtán til sextán klukkustundir að ná toppnum. Um fimm leytið aðfaranótt föstudagsins lenti fjórði maðurinn sem var með í för Sajid Sapara í vanda og snéri við. Þegar hann sá þremenningana síðast voru þeir við flöskuháls í um 8.200 metra hæð eða um fjögur hundruð metra frá toppnum líkt og sjá má á þessari mynd. Síðan þá hefur ekkert heyrst í þeim.

Aðstæður erfiðar og kalt í hlíðum fjallsins
Juan Pablo Mohr, einn þremenninganna var í ferð sem fjallaferðaskrifstofan Seven Summit Treaks sá um skipulagningu á. Starfsfólk þar hefur tekið þátt í skipulaginu leitarinnar og leitinni sjálfri.
„Við gerðum áætlun í dag og merktum inn á kort þá staði þar sem þeir gætu mögulega hafa hrapað eða týnst. Tvær þyrlur á vegum hersins leituðu á þessum stöðum,“ segir Thaneswar Guragai hjá Seven Summit Treaks
Hann segir aðstæður erfiðar og kalt efst í hlíðum fjallsins. „ Nú er vetur og kuldinn er svo gífurlega mikill. Það er ekki óalgengt að hann fari niður í mínus 75 gráður þegar vindkælingin bætist við. Þá mælist 50 stiga frost og mínus 75 stig með vindkælingarstuðli.“
Leit var að mestu lokið á fjórða tímanum að íslenskum tíma í dag þar til birtir á ný. Þá stendur til að fljúga þyrlum hersins aftur yfir svæðið.
„Vonin hefur dvínað. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef frá grunnbúðum þá eru aðstæður mjög svo erfiðar. Þetta er K2 og það er vetur,“ segir Thaneswar Guragai.