Heimildir fréttastofu herma að maðurinn hafi verið skotinn nokkrum sinnum. Lögregla var kölluð á vettvang og maðurinn í kjölfarið fluttur á Landspítala þar sem hann var úrskurðaður látinn. Þetta staðfesti lögreglan í tilkynningu á fjórða tímanum í dag. Þar segir að áverkar eftir skotvopn hafi fundist á líki mannsins.
Skömmu síðar handtók lögregla karlmann á fertugsaldri í Garðabæ vegna gruns um aðild að málinu, samkvæmt heimildum fréttastofu. Málið sé talið tengjast einhvers konar uppgjöri í undirheimunum. Hinn látni og sá sem er í haldi lögreglu eru báðir af erlendum uppruna.
Þegar fréttastofa var á vettvangi á tólfta tímanum í dag var tæknideild lögreglunnar enn að störfum. Studdist hún meðal annars við málmleitartæki og dróna sem sveif yfir vettvangi.
Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir að málið sé til rannsóknar. Hann vildi þó hvorki veita viðtal vegna málsins né tjá sig um það að öðru leyti enda málið á viðkvæmu stigi.