Ísak stóð vaktina í miðri vörn FH ásamt Ágústi Birgissyni í Hafnarfjarðarslagnum sem var æsispennadi eins og svo oft áður.
Ísak varði meðal annars sjö skot í hávörn FH samkvæmt tölfræði HB Statz. Hann var með jafn mörg varin skot og markverðir FH, þeir Phil Döhler og Birkir Fannar Bragason, til samans. Döhler varði sjö af því 31 skoti sem hann fékk á sig (22,6 prósent) en Birki Fannari tókst ekki að verja neitt af þeim fimm skotum sem hann þurfti að kljást við.
Ágúst varði þrjú skot í hávörninni og því vörðu þeir Ísak saman þremur fleiri skot en markverðir FH í leiknum.
Ekki nóg með að Ágúst hafi varið þrjú skot heldur var hann með tólf löglegar stöðvanir í leiknum. Hann fékk tíu í varnareinkunn hjá HB Statz fyrir frammistöðu sína en Ísak 9,1.
Ágúst skoraði einnig fjögur mörk í leiknum. Ísak fór sjaldan yfir miðju en gaf eina stoðsendingu.
FH er í 3. sæti Olís-deildarinnar með tólf stig. Næsti leikur liðsins er gegn botnliði ÍR í Kaplakrika á fimmtudaginn.

Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.