Reykjavíkurborg og Veitur hófu framkvæmdir á þessum hluta Tryggvagötu í fyrra en yfirborðsfrágangur er eftir. Lagnir eru endurnýjaðar auk þess sem gatan fær nýtt og fallegt yfirborð, að því er segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Hitastig hefur verið yfir frostmarki í höfuðborginni undanfarið og segir í tilkynningunni að markmiðið sé að nýta góða tíð til að klára þennan hluta verksins á vetramánuðum. Stefnt sé að því að klára stéttina sunnan megin í apríl en að torgið sjálft við listaverkið verði klárt fyrir sumarið.

„Verður gaman að sjá mannlífið færast út á torgið í sumar en rekstraraðilar við Tryggvagötu munu fá tækifæri til að nota hluta torgsins fyrir gesti sína, í samstarfi við Reykjavíkurborg, sem mun áreiðanlega skapa góða stemningu.“
Gönguleið meðfram Tryggvagötu sunnanverðri verður haldið opinni og aðgengi rekstraraðila tryggt. Á meðan grafið er næst húsunum verður notast við rampa til að tryggja aðgengi að þeim rekstri sem þarna er. Tekið er fram að lögð sé áhersla á að sá tími verði sem stystur.

Framkvæmdasvæðið verður lokað fyrir akandi umferð á meðan á framkvæmdatíma stendur. Umferðin verður með sama hætti og á meðan framkvæmdum stóð á síðasta ári. Umferðarstefnu verður snúið við í hluta Tryggvagötu á milli Pósthússtrætis og Lækjargötu. Þannig verður hægt að beygja frá Pósthússtræti austur Tryggvagötu að Lækjargötu.
Tryggvagatan verður lokuð á milli Grófarinnar, frá Grillhúsinu að Naustum. Það svæði breytist í vor í botnlanga sem er aðgengilegur frá Naustum þegar framkvæmdasvæðið færist yfir á gatnamót Grófarinnar.