Vísir greindi frá því fyrr í vikunni að 2.300 konur sem áttu sýni sem voru, eins og frægt er orðið, geymd í kössum í desember þar sem ekki hafði verið gengið frá samningum um greiningu þeirra hafa nú fengið niðurstöður bréfleiðis.
„Um 350 sýni komu óeðlilega út og þessar konur þarf að skoða aftur fljótlega,“ sagði Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, í svari við fyrirspurn fréttastofu.
Þessar konur fái bréf og ef þær svara ekki og bóka tíma verði „ýtt á eftir því“.
Áður hafði verið greint frá því að rannsóknarstofan í Kaupmannahöfn sem rannsakaði sýnin myndi ekki geta frumugreint þau þar sem sem þau væru ekki í réttum glösum. Því yrðu þær konur sem greindust með HPV boðaðar aftur í skimun.