Breska ríkisútvarpið greinir frá því að lögregla hefði skotið mótmælendur til bana í borgunum Yangon, Dawei og Mandalay. Mótmælendahópar hafa verið beittir táragasi, gúmmíkúlum og alvöru byssukúlum.
Öryggissveitir á vegum hersins hafa um helgina tekið upp enn meiri hörku gegn mótmælendum, sem hafa látið í sér heyra síðan herinn tók völdin í landinu í byrjun febrúar og nokkrir af helstu leiðtogum landsins, þar á meðal Aung San Suu Kyi, sem í raun hefur leitt landið síðustu ár eftir að herinn losaði tök sín, voru hnepptir í varðhald. Mótmælin hafa að mestu leyti verið friðsamleg.
Myndbönd og myndir af samfélagsmiðlum sýna mótmælendur reyna að forða sér undan öryggissveitum og lögreglu sem fylgja þeim fast á eftir. Þá sjást sveitirnar reisa vegatálma og leiða einhverja mótmælendur blóðuga í burtu.
Horrible images coming out of #Myanmar 🇲🇲 where protesters are experiencing the bloodiest day so far. More than a dozen protesters have been killed by live fire by #Tatmadaw forces pic.twitter.com/rnqhKEqcBJ
— Thomas van Linge (@ThomasVLinge) February 28, 2021
Tala látinna mótmælenda er á einhverju reiki, en einhverjir mjanmarskir aðgerðasinnar hafa á samfélagsmiðlum sagt frá því að allt að tuttugu mótmælendur hafi beðið bana í átökum við lögreglu.
Í samtali við AFP-fréttastofuna sagði einn mótmælandi að lögregla hefði byrjað að skjóta mótmælendur við fyrstu sýn.
„Lögreglan hóf skothríð um leið og við mættum. Við fengum enga viðvörun. Sumir [mótmælendur] særðust og sumir eru enn að fela sig í húsum nágranna sinna,“ sagði mótmælandinn Amy Kyaw.