Í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands klukkan 01:31 segir að skjálftinn hafi verið 4,9 að stærð. Upptök hans voru 2,5 kílómetra vestsuðvestur af fjallinu Keili, á sömu slóðum og aðrir skjálftar í dag. Hann varð á 3,4 kílómetra dýpi.
Íbúar á Akranesi, Grindavík, höfuðborgarsvæðinu og allt vestur á Grundarfjörð á Snæfellsnesi segjast í athugasemdum hafa fundið vel fyrir skjálftanum og sumir hverjir vaknað upp við hann.
Í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands kemur fram að skjálftinn hafi fundist mjög víða á Reykjanesskaganum, austur í Landeyjar og upp í Borgarfjörð.
Fréttin hefur verið uppfærð.