Jarðskjálftavirkni jókst umtalsvert í Fagradalsfjalli í gærkvöldi. Um klukkan 22 hófst óróapúls sem stóð yfir í um tuttugu mínútur og var í framhaldinu mikil virkni í nótt með snörpum skjálftum. Óróapúlsinn sem mældist í gærkvöld var minni en sá sem mældist þann þriðja mars.
Stærsti skjálfti næturinnar var 5,0 að stærð og reið hann yfir klukkan tvö um þrjá kílómetra vestsuðvestur af Fagradalsfjalli.
Bæjarstjóri Grindavíkurbæjar vaknaði við skjálftann í nótt.
„Ég vaknaði upp við skjálftann sem var um klukkan tvö. Hann var mjög sterkur og upptökin nálægt okkur þannig að ég held að flestir hafi hrokkið upp við hann,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík.
Afleiðingar af spennubreytingum í jarðskorpunni
Vísindaráð fundaði með almannavörnum og fulltrúum Grindavíkurbæjar í nótt vegna skjálftanna.
„Það var boðað til fundar að frumkvæði Almannavarna. Þar voru sérfræðingar frá Veðurstofunni sem voru aðallega að fara yfir og rýna í gögn um hvað væri á ferðinni. Þá kom í ljós að þetta voru taldar afleiðingar af spennubreytingum í jarðskorpunni en ekki tilfærslu á kviku og í því ljósi var ekki talin ástæða til sérstakra viðbragða af hálfu almannavarna,“ segir Fannar.
Íbúar sækja í frið frá hrinunni
Fannar segir óþægilegt eftir allan þennan tíma að ekkert lát skuli vera á skjálftahrinunni.
„Í bili þá eru örugglega margir sem hafa notað tækifærið um helgina í fríinu og farið í sumarbústað. Einhverjir hafa verið að leigja sér hótelherbergi eða farið til ættingja að dreifa huganum. Ég veit ekki til þess að íbúar séu að flytja til burtu varanlega en örugglega vilja margir komast í annað umhverfi um helgina og líta aðeins upp frá þessu,“ segir Fannar.
„Þetta er auðvitað mjög lýjandi eftir svona langan tíma að þetta skuli enn standa yfir og þess vegna er mikilvægt að fólk reyni að hlúa að sér og sínum og líka að halda sinni rútínu. Það er sérstaklega vont að vakna við svona skjálfta um miðja nótt í myrkri.“
Opið hús í dag
Opið hús verður í Kvikunni í dag á milli klukkan 13 og 17 þar sem áhersla verður lögð á að koma upplýsingum til pólska samfélagsins að sögn Fannars. Fundurinn sjálfur hefst klukkan 14:30 og hægt verður að horfa á streymi á Youtube síðu Grindavíkurbæjar. Sýnt verður frá streyminu hér á Vísi. Vísindaráð mun funda með almannavörnum og fulltrúum Grindavíkurbæjar í dag.