Tveir skjálftar mældust 2,9 að stærð. Annar þeirra varð klukkan 01:23 um tvo kílómetra norðaustur af Grindavík og hinn varð klukkan 04:53 rétt suðvestur af Keili að því er segir í tilkynningu frá náttúruvárvakt Veðurstofu Íslands. Var virknin í nótt mest í Fagradalsfjalli og rétt austan við Þorbjörn.
Alls mældust um 2000 jarðskjálftar á Reykjanesskaga í gær, 15. mars. Sá stærsti varð klukkan 22.31 og mældist 4,3 að stærð. Hann átti upptök sín við norðvestanvert Fagradalsfjall.
Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að enginn órói hafi mælst á svæðinu í nótt og þá séu engin merki um að eldgos sé hafið.
Í gærkvöldi fór gervitungl yfir skagann og smellti af mynd. Niðurstöður úr þeirri myndatöku ættu að koma í dag. Vísindaráð almannavarna kemur saman til fundar eftir hádegi til að fara yfir stöðuna.