„Ég hlakka til. Þetta er mikið sjónarspil og þetta er sögulegt gos. Það gaus síðast á Reykjanesskaga fyrir um átta öldum og þá átti Snorri Sturluson Bessastaði, eða það var um það leyti,“ sagði Guðni í samtali við fréttastofu rétt áður en hann lagði af stað í loftið í morgun.
Hvetur fólk til að sýna skynsemi og aðgát
„Bara það að það sé farið að gjósa á þessum slóðum er sögulegt á sinn hátt og við vonum öll að gosið valdi ekki usla og að þetta sé ekki fyrsta gosið í langri hrinu eldsumbrota á þessum stað en við vitum það ekki núna,“ segir Guðni.

„Það er brýnt að jarðfræðingar og aðrir leitist núna við að kanna stöðuna og ég held að það sé líka afar brýnt að þeir sem vilja sjá þetta sjónarspil fari að öllu með gát. Gangan að gosstöðvunum úr byggð er einungis á færi vans útivistarfólks þannig að ég bið alla að sýna skynsemi og fyllstu aðgát.“
Hann kveðst hafa fylgst grannt með gangi mála frá því gos hófst. „Við höfum auðvitað fylgst með og ég man að þegar gosið hófst sáum við frá Bessastöðum óljósan rósrauðan bjarma á himni. Og við höfum auðvitað fundið fyrir skjálftunum þó að það sé auðvitað ekkert í líkingu við það sem Grindvíkingar og aðrir í grennd þurftu að þola,“ segir Guðni.

Raunveruleikinn vonandi rólegri en skáldskapurinn
„Við búum á eldfjallaeyju, við búum á landi þar sem náttúran sýnir okkur sinn ægimátt með reglulegu millibili. Við þurfum að virða hana. Við þurfum að lifa í sátt við náttúruna og við þurfum að átta okkur á þessum ógnaröflum sem þarna eru að leysast úr læðingi og vona að allt fari nú vel,“ segir Guðni.
Aðspurður segist forsetinn ekki áður hafa farið svo lálægt eldgosi. „Ég er fullur tilhlökkunar að því leytinu til. Þetta verður ægilegt sjónarspil. Ég er byrjaður að lesa Eldana eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur þar sem að svona hamförum er lýst og vona að raunveruleikinn verði nú ögn rólegri en skáldskapurinn. Ég vona líka að næst þegar Sigríður Hagalín skrifar einhverja bók að þá heiti hún bara „Endalaus hamingja,“ sagði forsetinn léttur í bragði, en skáldsögur Sigríðar Hagalín hafa einmitt vakið nokkra athygli að undanförnu enda fjalla tvær þeirra annars vegar um jarðhræringar og hins vegar um heimsfaraldur.
