Þetta kemur fram í tilkynningu frá Almannavörnum sem birt var á Facebook. Þar kemur fram að ákvörðunin sé byggð á ályktun vísindaráðs þar sem vakin var athygli á því að stóri gígurinn geti brostið og hrauntaumurinn breytt hratt um stefnu.
„Þá er einnig hætta á að önnur gossprunga opnist í grennd við gíginn, en það gerðist í eldgosinu á Fimmvörðuhálsi 2010. Lokaða svæðið er rauðmerkt á meðfylgjandi mynd.“ segir í tilkynningunni.

Ennfremur er athygli vakin á öðrum hættum sem kunnu að skapast í kringum gosstöðvarnar:
- Nýjar sprungur geta opnast í næsta nágrenni eldstöðvanna með engum fyrirvara.
- Glóandi hraun getur fallið úr hraunjaðrinum og hröð og skyndileg framhlaup orðið þar sem nýjar hrauntungur brjótast fram úr hraunjaðrinum með miklum hraða sem erfitt að forðast á hlaupum.
- Gígarnir eru nú orðnir margra metra háir og geta verið óstöðugir, þeir geta brotnað og mikill og skyndilegur hraunstraumur úr þeim tekið nýja stefnu.
- Sprengingar geta orðið þar sem hraun rennur yfir vatnsmettaðan jarðveg og þeytt hrauni til allra átta.
- Hraunið rennur í lokaða dæld og geta lífshættulegar gastegundir safnast saman í dældum sem getur verið banvænt. Hættan eykst þegar vindur minnkar.
Þá spáir Veðurstofan vondu veðri næsta sólarhringinn og er ferðafólki bent á að vera mjög vel búið ef það ætlar sé að ganga upp að gosstöðvum. Búist er við að veðrið versni talsvert í nótt.
Margir lögðu leið sína að svæðinu í nótt.