Jóhann K. Jóhansson, fréttamaður Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar, er á svæðinu og tók meðfylgjandi mynd sem sýnir hluta af bílaröðinni. Bílarnir skipta hundruðum að sögn Jóhanns.
„Staðan er þannig að það er mikill áhugi á gosstöðvunum. Maður sér það á fjölda fólks sem er að ganga frá Suðurstrandarvegi og í átt að Geldingadölum. Hér eru að minnsta kosti 200-300 bílar og nokkrar rútur,“ segir Jóhann.
Björgunarsveitir stikuðu stystu leið að gosstöðvunum í gær.

„Veðrið er með eindæmum gott og verður það fyrri part dags. Greinilega margir sem ætla sér að sjá eldgosið í dag.“
Jóhann segir að ágætlega gangi að koma bílum fyrir. Að sama skapi sé ljóst að þeir sem tínist á svæðið núna þurfi að leggja ansi langt frá gönguleiðinni á svæðið.