Í kynningu á fjármálaáætlun í gær sagði fjármálaráðherra aðgerðir stjórnvalda að undanförnu hafa skilað miklum árangi. Ráðstöfunartekjur heimilanna hefðu aukist í fyrra og samdráttur í efnahagslífinu verið mun minni en reiknað hefði verið með.
Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar sagði á Alþingi í dag að samkvæmt þessari fjármálaáætlun yrðu 35 prósent fleiri atvinnulausir á þessu ári en gert hefði verið ráð fyrir í áætlun fyrir jól. Það væru rúmlega fimm þúsund manns.

„Í kynningunni skautar ríkisstjórnin svo algerlega framhjá því að það er gert ráð fyrir fimm prósenta atvinnuleysi í lok tímabilsins 2023. Það er fimmtíu milljarða kostnaður fyrir ríkissjóð á hverju ári. Sá kostnaður mun haldast um ókomna tíð ef ekki verður ráðist að rót vandans sem er fjölda atvinnuleysið,“ sagði Logi.
Ef svartsýnustu spár gengju eftir ætti hiins vegar að grípa til „afkomubætandi“ ráðstafana sem þýddi niðurskurð og eða skattahækkanir.
„Það er ekkert sérlega geðsleg pólitík sýn sem felst í því að sætta sig við áframhaldandi atvinnuleysi en hóta svo með ótilgreindum niðurskurðartillögum í lok tímabilsins til þess eins að ná einhverju sérstöku óska skuldahlutfalli,“ segir Logi.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði samhengið skipta máli þar sem ríkisstjórnin hefði beitt sér til að draga úr efnahagslegum afleiðingum kórónuveirufaraldursins. Mesta hættan stafaði af langtíma atvinnuleysi.
„Þess vegna snúast aðgerðir ríkisstjórnarinnar nákvæmlega um þetta. Að tryggja ráðningarsamband fólks. Að tryggja afkomu fólks. Tryggja það að við sköpum fleiri störf. Við munum sjá núna aukningu í fjárfestingum ríkisins. Það hefur töluvert verið rætt um opinbera fjárfestingu, hlut ríkis og sveitarfélaga í henni þar sem við erum líka að skapa störf,“ sagði Katrín Jakobsdóttir.