Nágrenni eldgossins í Geldingadal var rýmt klukkan 17 í dag en Veðurstofan varar við því að hættulegar gastegundir geti safnast fyrir í lægðum og dældum þegar veður lægir. Styrkur gassins þar gæti verið lífshættulegur.
Jóhann K. Jóhansson fréttamaður var á vettvangi á Suðurnesjum í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 og ræddi við Sigurð Bergmann, aðalvarðstjóra hjá lögreglu á Suðurnesjum.
Rýming var enn í gangi þegar kvöldfréttir hófust um klukkan 18:30. Sigurður sagði að svo virtist sem gengið hefði nokkuð vel að rýma svæðið. Þá hefði lögregla búist við því að fleiri yrðu á svæðinu þegar rýming hæfist.
Mikið öngþveiti varð á Suðurstrandarvegi í dag, sem opnaður var í aðra áttina í gær til að auðvelda aðkomu göngufólks á svæðinu. Bílaröðin sem myndaðist eftir því sem leið á daginn var líkast til lengri en gönguleiðin frá Suðurstrandarvegi að gosstöðvunum.
Inntur eftir því hvort gerðar yrðu einhverjar ráðstafanir til að bæta ástandið sagði Sigurður að rýnt yrði í stöðuna og fundað. „Þetta gekk ekki upp, það var alltof mikil aðsókn miðað við skipulagið,“ sagði Sigurður.
Skipulagið yrði með öðrum hætti á morgun. Þá yrði að koma í ljós hvort svæðið yrði yfir höfuð opið á morgun. „Það er óvíst,“ sagði Sigurður.
Viðtal Jóhanns K. Jóhannssonar við Sigurð og umfjöllun Jóhanns frá gosstöðvunum í dag má horfa á í spilaranum hér fyrir neðan.