„Við vorum bara að tala saman stelpurnar á snapchat og það voru bara allir úr öllum bekkjum að segja: „Þessi smitaðist í bekknum mínum og þessi smitaðist í bekknum mínum.“
Marta segist þekkja til þeirra sem hafa greinst smitaðir. Hún hefur frétt frá vinahópnum að þau virðist ekki vera mjög veik. Bryndís Ýr Pétursdóttir, segist hafa heyrt í gegnum foreldrahópa á netinu, að líðan þeirra sé góð.
„Mér heyrist á foreldrum að einkennin séu ekki mjög mikil, alla vega ekki hjá þeim sem við höfum heyrt af,“ segir hún.
Börn á öllum skólastigum í Laugarneshverfi voru heima í dag, annað hvort í sóttkví fram að næstu helgi eða í úrvinnslusóttkví og bíða fyrirmæla um framhaldið. Marta er því í sóttkví ásamt tveimur systrum sínum, yngri systur í leikskóla og eldri systur sem er í Laugalækjarskóla, þar sem 7.-10. bekkur eru til húsa. Í kvöld átti að vera árshátíð í Laugalækjarskóla en henni var vitanlega frestað.
„Stemningin er auðvitað frekar súr. Ég veit um fermingar sem áttu að vera um helgina sem er búið að fresta. Þannig að þetta er auðvitað voða leiðinlegt en ekkert hægt að gera í þessu. Við erum bara öll í þessu,“ segir Bryndís Ýr.