Að því er segir í dagbók lögreglu veittist maður í annarlegu ástandi að starfsmanni á veitingastaðnum. Manninum hafði ítrekað verið vísað út af staðnum vegna brota á sóttvarnalögum og hafði hann síðan ráðist á starfsmann staðarins með höggum og spörkum.
Maðurinn var í tökum þegar lögregla kom á vettvang og handtók hann. Þegar hann var fluttur á lögreglustöðina hótaði hann lögreglumönnum lífláti og sparkaði í einn lögreglumann. Var maðurinn vistaður í fangageymslu en við vistun fundust ætluð fíkniefni á honum.
Þá fór lögreglan í eftirför á Vesturlandsvegi við Árbæinn skömmu fyrir klukkan þrjú í nótt. Bíllinn sem lögregla elti var ekki á númerum og ökumaðurinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum.
Stuttu síðar stöðvaði bíllinn og fór ökumaðurinn þá í aftursætið. Par var í bílnum og voru þau bæði handtekin grunuð um akstur undir áhrifum fíkniefna og akstur svipt ökuréttindum.
Um klukkan sex í gærkvöldi var síðan maður í annarlegu ástandi handtekinn í Vesturbænum grunaður um líkamsárás og þjófnað.