„Það var mjög mikið að gera í dag og þetta er búið að vera stígandi síðustu daga en við náðum algjörum toppi í dag. Þetta var mjög gaman,“ sagði Leifur Dam Leifsson, eigandi GG sport, í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Nauðsynlegt er að sögn Leifs að fólk sé vel búið í gönguna að Geldingadölum, í samræmi við tilmæli viðbragðsaðila. Til að mynda hefur verið biðlað til fólks að það mæti með mannbrodda en mikill ís og hálka getur myndast á leiðinni eins og gerðist í dag.
„Það þarf sérstaklega góða gönguskó, bakpoka, göngustafi og höfuðljós og að sjálfsögðu brodda líka,“ segir Leifur.
Það er þó ekki hægt að nota hvaða mannbrodda sem er fyrir gönguna. Velja þarf vel, en broddar sem fást víða eru að sögn Leifs ekki nógu góðir fyrir svona göngu.
„Þessir punktabroddar eru bara til að ganga á götum en það sem er gott að gera er að velja brodda sem eru með göddum. Vegna þess að gaddarnir þeir læsa sig niður í ísinn og ef það snjóar yfir ísinn þá ná þeir líka í gegn. Þetta eru broddarnir sem fólk þarf að taka,“ segir Leifur.
Hann segir marga telja þá brodda of mikið en hann segir það ekki svo.
„Það er alls ekki þannig. Það er mjög einfalt að ganga á þeim og þeir snúast heldur ekki þegar maður er í hallanum,“ segir Leifur.
Hann segist ekki muna eftir annarri eins umferð í búðina á þessum árstíma.
„Bara á svona „high-season“ tímum, í kring um jólin og á sumrin en aldrei svona seint í mars. Þetta er gaman hjá okkur og það er greinilegt að fólk ætlar að fylgja tilmælum og við höfum upplifað spenning í fólki og þau ætla að búa sig vel þannig að það er mjög jákvætt.