Líkt og kunnugt er var ákveðið að loka fyrir umferð að gosstöðvunum í dag vegna veðurs. Rýming á svæðinu hófst um klukkan tíu í gærkvöldi og var lokið fyrir miðnætti.
„Vindátt fram að hádegi á morgun er okkur ekki hagstæð með tilliti til gasmengunar en mun verða betri um hádegi,“ segir í tilkynningunni.
„Veðurspá Veðurstofunnar gerir ráð fyrir norðan og norðaustan átt, frost 3 til 7 stig. Þeir sem hyggjast leggja leið sína að gosstöðvunum eftir hádegi á morgun ættu að huga vel að klæðnaði því að það verður kalt og vindkæling töluverð í ofanálag. Umferð sem nauðsynlega þarf að fara um Suðurstrandarveg mun geta farið fram hjá lokunum.“
Ráðlagt er fyrir þá sem hyggja á ferðalög um páskana að fylgjast vel með veðri og færð en gular viðvaranir eru til að mynda í gildi víða um land bæði í dag og á morgun.