Tómas Hilmar Ragnarz, stofnandi og eigandi félagsins, tjáði Viðskiptablaðinu í desember að tap í dómsmáli gegn Reginn, leigusala fyrirtækisins, hefði gert útslagið.
„Viðskiptin fóru niður hjá okkur um tæp 60% á árinu vegna Covid en ekki nægilega mikið til að komast inn í björgunarpakka stjórnvalda,“ sagði Tómas Hilmar við Viðskiptablaðið í desember.
Reginn hefði neitað að semja um lækkun í verði í ljósi kórónuveirufaraldursins eða koma á annan hátt til móts við Orange Project. Aðrir leigusalar hafi sýnt aðstæðum meiri skilning.
Tómas tjáði Fréttablaðinu síðasta sumar að Reginn hefði einhliða sagt upp leigusamningi og sett sig beint í samband við viðskiptavini Orange Project og boðið sambærileg kjör. Að lokum hafi deilurnar farið fyrir dóm þar sem málið hafi tapast.
Orange Project hóf starfsemi í september 2014. Fyrst með sautján skrifstofurými og tvö fundarherbergi. Tveimur árum síðar voru rýmin orðin 110 og fundarbergin fimm sinnum fleiri.
Að neðan má sjá kynningu á fyrirtækinu frá árinu 2016.
Árið 2017 gerði fyrirtækið samning við alþjóðlega fyrirtækið Regis, stærsta skrifstofuhótel í heiminum. Þannig hefði fyrirtækið verið komið á heimskortið og getað leigt skrifstofur um allan heim. Í framhaldinu var fyrirtækinu breytt hér á landi og kennt við Regus til jafns við Orange Project.
„Það má líkja þessu við það að reka Gistiheimilið á Baldursgötu en setja síðan Hilton skiltið á húsið. Það breytast allar forsendur fyrir rekstrinum. Nú verða allt í einu 3.500 manns að selja okkar vöru,“ sagði Tómas við Viðskiptablaðið fyrir tæpum fjórum árum.
Reksturinn reyndist hins vegar afar erfiður í heimsfaraldrinum og varð fyrirtækið gjaldþrota í desember. Regus starfar þó áfram og er með skrifstofukjarna á þriðju hæð í Höfðatorgi. Tómas stýrir fyrirtækinu.