Með tilkynningunni fylgja tvær myndir, sem teknar eru með klukkustundar millibili. Þar sést greinilega að landslagið við gosstöðvarnar er síbreytilegt og hraun fljótt að þekja stórt svæði.
Á korti hér að neðan má sjá hvernig hættusvæðið er skilgreint. Innan svæðisins er allra mesta hættan á opnun fleiri gossprunga án fyrirvara. Slíkum atburði getur fylgt skyndilegt og hratt hraunflæði sem erfitt getur verið að forðast.

„Því má segja að hættusvæðið sé í raun stærra en það sem er merkt á kortinu því það fylgja einnig aðrar hættur á svæðinu sem fylgja framrás hrauns og uppsöfnunar gass. Því er fólk beðið um að nota almenna skynsemi og meta aðstæður á svæðinu hverju sinni,“ segir í tilkynningunni.