
Mikið gekk á á gosstöðvunum en Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Vísis, var á svæðinu og náði tilkomumiklum myndum á svæðinu.
Á föstudagskvöld voru tveir fluttir af gossvæðinu og var annar þeirra fluttur á brott með sjúkrabíl. Mikil mengun mældist við gosið og fundu margir fyrir sviða í augum og öndunarfærum vegna mengunarinnar. Sums staðar mældist magn brennisteinsdíoxíðs (SO2) allt að 15 kg/s sem telst mjög hátt gildi.
Þá varð töluverð breyting á gosinu skömmu fyrir miðnætti á föstudag. Um er að ræða einhvers konar þrýstingsbreytingu sem lýsir sér þannig að virknin minnkar í tvær mínútur í senn og rýkur svo upp. Gosstrókinn mátti sjá langar leiðir og sást hann greinilega á höfuðborgarsvæðinu.
Kvikustrókar rjúka upp allt að 200 til 300 metra frá hrauntjörninni.

Þá mættust hrauntungurnar í Merardölum á föstudag og lokuðu þar með vegi sem björgunarsveitarmenn og aðrir hafa notað.
Gríðarlegur hiti var við gosstöðvarnar um helgina, og er ennþá, og vart hefur orðið við gróðurelda. Hættusvæðið í kring um gosstöðvarnar var endurmetið og er nú biðlað til fólks að halda sig í að minnsta kosti 500 metra fjarlægð. Von er á nýju hættumati seinna í dag fyrir svæðið.
Þá sagði Elísabet Árnadóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við fréttastofu í gær að ekki sé útilokað að hitinn og gróðurbruninn sé einhvers konar undanfari nýrrar sprungu, þó ekki sé víst að svo sé.

Björgunarsveitir þurftu um klukkan fjögur í gær að rýma svæðið allra næst gosstöðvunum bæði vegna aukinnar gasmengunar og gjóskufalls á svæðinu. Tveir gikkskjálftar riðu yfir svæðið í nótt um þrjá kílómetra vestur af Kleifarvatni. Skjálftarnir voru 3,2 og 2,8 að stærð og fundust þeir vel á höfuðborgarsvæðinu.





