Frá þessu segir í tilkynningu á vef Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands. Nýjustu niðurstöðurnar eru sögð nokkur tíðindi þar sem veruleg aukning hafi orðið í hraunrennsli í Fagradalsfjalli síðustu vikuna.

„Aukið flæði hefur haldist í hendur við hækkandi kvikustróka og öfluga framrás hraunsins í Meradölum. Gosið er nú tvöfalt öflugra en það hefur verið lengst af. Merki um aukningu hafa þó verið undanfarnar tvær vikur en mælingin nú tekur af öll tvímæli.
Rúmmál hraunsins er nú orðið rúmlega 30 millj. rúmmetrar og flatarmál þess tæplega 1,8 ferkílómetrar,“ segir í tilkynningunni.
Jarðvísindastofnun segir að af þeim rúmlega fimmtíu dögum sem liðnir séu frá upphafi gossins megi gróflega skipta í þrennt.
- Fyrsta tímabilið stóð í um tvær vikur og einkenndist af fremur stöðugu en þó örlítið minnkandi hraunrennsli. Rennslið lækkaði úr 7-8 m3/s í 4-5 m3/s á tveimur vikum.
- Annað tímabilið, sem einnig stóð í tvær vikur, einkenndist af opnun nýrra gosopa norðan við upphaflegu gígana. Hraunrennsli var nokkuð breytilegt, á bilinu 5-8 m3/s.
- Þriðja tímabilið, síðustu þrjár vikur, hef einn gígur verið ráðandi og kemur nær allt hraunið úr honum. Hraunrennsli hefur heldur vaxið á þessum tíma. Aukningin hefur verið mikil síðustu vikuna og nú er gosið mun stærra en verið hefur hingað til. Enn er þó ákafi gossins fremur lítill miðað við önnur gos.

Frábrugðið fyrri gosum
Ennfremur segir að gosið í Fagradalsfjalli sé um margt frábrugðið þeim gosum sem Íslendingar hafi orðið vitni að undanfarna áratugi.
„Flest gosin hafa átt upptök í kvikuhólfum undir megineldstöðvum þar sem þrýstingur í hólfinu og stærð þess virðist ráða mestu um stærð og lengd goss.
Í Fagradalsfjalli virðist þessu vera nokkuð öðruvísi varið. Þar er svo að sjá að aðstreymisæðin og eiginleikar hennar ráði miklu um kvikuflæðið. Rásin sem opnaðist var tiltölulega þröng og löng (nær niður á ~17 km dýpi) og flutningsgetan takmörkuð. Aukning með tíma bendir til þess að rásin fari víkkandi, sennilega vegna rofs í veggjum hennar. Ekki er að sjá að þrýstingur í upptökum hafi minnkað að ráði og því vex flæðið með tímanum þar sem rásin stækkar. Engin leið er á þessari stundu til að segja til um hve lengi gosið muni vara eða hvort hraunrennslið muni halda áfram að aukast,“ segir í tilkynningunni frá Jarðvísindastofnun.