Myndbandið sem var birt í gær vakti mikla athygli. Þar stíga þjóðþekktir einstaklingar fram og lýsa yfir stuðningi við þolendur ofbeldis. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.
Það voru þær Edda Falak og Fjóla Sigurðardóttir, stjórnendur Eigin kvenna, sem höfðu veg og vanda af útgáfu myndbandsins. Edda hefur verið áberandi í umræðunni í kringum mál Sölva Tryggvasonar en segja má að önnur bylgja #metoo gangi yfir landið þar sem fjölmargar konur og einhverjir karlar hafa deilt sögum af ofbeldi sem þau hafa orðið fyrir.
Edda segir að þær Fjóla séu að ráða ráðum sínum.
„Þetta er smá leiðinlegt mál,“ segir Edda í samtali við Vísi.
„Við vitum ekki alveg hvað er best í stöðunni.“
Hún játar því að í kjölfar þess að allt þetta fólk steig fram í myndbandinu undir yfirskriftinni „Ég trúi“ hafi farið sögur af stað, „um alls konar“ eins og Edda kemst að orði. Þar á meðal fólk sem komi fram í myndbandinu.

„Við erum að reyna að finna út hvað er best í stöðunni. En það breytir auðvitað ekki boðskapnum,“ segir Edda. Þær séu að endurklippa vídeóið og ætli svo að birta það á nýjan leik.
„Við ætlum að pósta því aftur. Hvort sem það verður án einhvers, eða einhver auka, eða bara eins,“ segir Edda.
„Það er mikilvægt ef einhverjar sögur eru að ganga um fólk í vídeóinu að fólk axli ábyrgð.“
Ásamt þeim Eddu og Fjólu, þáttastjórnenda Eigin kvenna, Víðis og Áslaugar Örnu komu fram í myndbandinu þau Kristófer Acox, Kristján Helgi Hafliðason, Saga Garðarsdóttir, Eva Mattadóttir, Sara Mansour, Álfgrímur Aðalsteinsson, Arnar Dan Kristjánsson, Donna Cruz, Erna Kristín Stefánsdóttir, Tinna Óðinsdóttir, Kolbrún Birna H. Bachmann, Helga Sigrún, Aron Can, Þorsteinn V. Einarsson, Pálmar Ragnarsson, Kamilla Ívarsdóttir og Magnús Sigurbjörnsson.
Allir þættir af Podcasti Sölva Tryggvasonar voru fjarlægðir af YouTube og úr hlaðvarpsveitum í gær eftir að beiðni þess efnis barst stafrænu auglýsingastofunni KIWI. Þeirra á meðal umtalaður þáttur þar sem hann tók viðtal við sjálfan sig í kjölfar orðróms og fréttaflutning Mannlífs af ásökunum í hans garð.
Fréttin hefur verið uppfærð.