Mohammed Abu Hatab, sagði blaðamönnum á Gasa í nótt að eiginkona hans og fimm börn hefðu farið að halda upp á Eid al-Fitr hátíðina með ættingjum sínum. Hún og þrjú barnanna eru dáin. Eitt ellefu ára gamalt barn er týnt en einungis fim mánaða sonur Hatab lifði árásina af, svo vitað sé.
Samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar segja nágrannar í sömu byggingu að engin viðvörun hafi borist í aðdraganda árásarinnar.
Minnst 126 hafa fallið á Gasa í vikunni, þar af 31 barn og tuttugu konur. Í Ísrael hafa minnst sjö fallið vegna eldflauga sem hefur verið skotið af Hamas-liðum frá Gasa, þar af einn sex ára drengur.
Friðarviðleitanir hafa litum árangri skilað hingað til en öryggisráð Sameinuðu þjóðanna mun funda um ástandið á morgun. Erindrekar víðsvegar að hafa reynt að miðla milli fylkinga.
Samkvæmt frétt Reuters hafa erindrekar frá Egyptalandi reynt að þrýsta á Hamas-samtökin varðandi það að koma á friði. Samhliða því hafa erindrekar frá Bandaríkjunum og öðrum ríkjum þrýst á yfirvöld í Ísrael.