Í fréttum Stöðvar 2 var rifjað upp að tveir mánuðir eru í dag frá upphafi eldgossins í Fagradalsfjalli.
„Þetta er skrautsýning sem fólk sækist í,“ segir Páll. Gosið marki endalok 780 ára tímabils án jarðelda á Reykjanesskaga.
„Maður hugsar oft til þess, þegar maður stendur hér í vesturbænum og horfir til fjalla og sér eldgos bera við himin, að þetta er sýn sem ekki hefur verið boðið upp á hér í Reykjavík bara síðan á dögum Snorra Sturlusonar.“

Páll segir að þótt gosið teljist lítið sé það liður í umfangsmiklum umbrotum, sem hófust eigi síðar en í desember 2019, með mörgum skjálftahrinum og sennilega sex kvikuinnskotum á fjórum stöðum.
„Jafnvel þó að þessu gosi lyki fljótlega, sem alls ekki er útilokað, þá er ekki þar með sagt að atburðarásinni sé lokið. Það þarf að hafa augun hjá sér enn til þess að reyna að bera kennsl á það hvað gerist næst. Hver er næsti kafli í atburðarásinni?“
Í ljósi sögunnar verði að telja líklegt að fleiri eldgos fylgi.

„Á næstu 200-300 árum gætu sem sé orðið fleiri gos. Þá erum við kannski að tala um 10-20 gos á Reykjanesskaga sem gætu fylgt í kjölfarið.“
Hann segir að áratugir gætu þó liðið á milli gosa. En hvar líklegast væri að þau kæmu upp nefnir Páll virkustu svæðin; Reykjanes, Svartsengi, Krýsuvíkureldstöðina og Brennisteinsfjöll, og vísar til sögunnar.
„Krýsuvík, Reykjanes og Brennisteinsfjöll hafa verið býsna virk á síðustu árþúsundum og þar hafa orðið nokkuð myndarleg hraungos, miklu myndarlegri heldur en það sem nú er uppi,“ segir Páll Einarsson.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Hér má sjá eldgosið í beinni útsendingu Vísis: