Framkvæmdastjóri Júmbó segir við Vísi að mannleg mistök í verksmiðju fyrirtækisins hafi valdið því að örfá kjúklingakebab hafi verið merkt með vegan-límmiða og send í búðir.
„Þetta voru bara nokkur eintök sem sluppu út frá okkur, við vitum ekki hvort þetta eru fimm stykki eða tíu en erum að reyna að hafa upp á þeim öllum,“ segir Sigurður Ólafsson, framkvæmdastjóri Júmbó.
Umræddur grænkeri hafði samband við fyrirtækið í dag og lét vita af mistökunum. Hann varaði aðra grænkera svo við vörunni á Facebook-hópnum vinsæla, Vegan Ísland.
„Það er eina kvörtunin sem við höfum fengið,“ segir Sigurður. „Hann hafði fundið þarna tvö eintök frá okkur en við erum að hafa upp á hinum.“
Hann segir að mistökin séu leiðinleg en ósköp mannleg og skiljanleg. Þannig er nefnilega mál með vexti að falafel-vefjur fyrirtækisins, sem eru vissulega vegan, eru í umbúðum keimlíkum þeim sem kjúklingakebabið er í. Starfsmaður nokkur hafi einfaldlega ruglast og skellt vegan-límmiða á nokkur kjúklingakebab.