Kiel var sjö mörkum yfir í hálfleik, 18-11, en Lemgo vann að lokum eins marks sigur, 29-28.
Bjarki var einn af markahæstu mönnum leiksins en sá eini þeirra með fullkomna nýtingu, eða sex mörk úr sex skotum. Þar af voru þrjú mörk af vítalínunni.
Lemgo skoraði þrjú fyrstu mörkin í seinni hálfleik og minnkaði muninn í 18-14. Kiel jók muninn á ný en Bjarki skoraði svo tvö mörk í röð og minnkaði muninn í 24-20.
Lemgo hélt áfram að minnka muninn og Bjarki kom liðinu svo yfir, 28-27, þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir. Kiel jafnaði en Andreas Cederholm skoraði sigurmark Lemgo þegar tæp mínúta var til leiksloka.
Melsungen og Hannover eigast við í hinum undanúrslitaleiknum í kvöld og úrslitaleikurinn er svo á morgun.