Sú fyrrnefnda einkennist af þremur háum möstrum og hefur vakið talsverða athygli á Akureyri og Ísafirði, þar sem henni hefur meðal annars verið lagt að bryggju á ferðalagi eigandans, Andrey Melnichenko. Samkvæmt lista Bloomberg er hann áttundi ríkasti maður Rússlands – og númer 102 í heiminum öllum.
Melnichenko er í fríi á Íslandi með fjölskyldu sinni og snæddi til að mynda málsverð á Tjöruhúsinu á Ísafirði fyrir skömmu. Samkvæmt vef Marine Traffick var snekkjan við höfn í Reykjanesbæ í gær áður en henni var siglt til Reykjavíkur.

Hin skútan, Le Grand Bleu, er í eigu rússneska olíubarónsins Eugene Shvidler. Snekkjan er 113 metrar á lengd og var sú 36. lengsta sinnar tegundar í heiminum árið 2019, samkvæmt Wikipedia-síðu snekkjunnar.
Þar kemur jafnframt fram að Shvidler hafi eignast hana er hann vann veðmál við fyrri eiganda, samlanda sinn Roman Abramovich sem þekktastur er fyrir að eiga breska knattspyrnuliðið Chelsea. Sjálfur á Abramovich glæsisnekkjuna Eclipse, sem var á tímabili stærsta snekkja í einkaeigu á heimsvísu.
