Alls hafa 798 atkvæði verið talin úr flestum en ekki öllum kjördeildum. Í fyrsta sæti er Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og varaformaður flokksins, með 532 atkvæði.
Í öðru sæti er Teitur Björn Einarsson, lögmaður og varaþingmaður flokksins, með 359 atkvæði í fyrsta til annað sæti.
Haraldur Benediktsson, þingmaður flokksins og bóndi, er í þriðja sæti með 389 atkvæði í fyrsta til þriðja sæti.
Sigríður Elín Sigurðardóttir, sjúkraflutningakona og nemi, er í fyrsta til fjórða sæti með 306 atkvæði í fyrsta til fjórða sæti.
Ætlar ekki að þiggja annað sætið
Haraldur Benediktsson lýsti því yfir fyrr í vikunni að hann hygðist ekki þiggja annað sæti listans, tapi hann baráttunni um oddvitasætið fyrir Þórdísi Kolbrúnu.
Margar Sjálfstæðiskonur gagnrýndu þessa yfirlýsingu, þar á meðal Rósa Guðmundsdóttir. Hún sagði þetta vera sömu taktík og Haraldur hefði beitt í prófkjörinu árið 2013. Þar keppti Haraldur um oddvitasætið ásamt Eyrúnu Ingibjörgu Sigþórsdóttur og lýsti því yfir að hann tæki fyrsta sætið eða ekkert.