Snekkjan sem er ein sú dýrasta í heiminum, er í eigu auðjöfursins Andrey Melnichenko. Hann er talinn vera áttundi ríkasti maður Rússlands og númer 102 í heiminum öllum.
Melnichenko hefur dvalið hér á landi með fjölskyldu sinni í þó nokkurn tíma. Snekkjan sást fyrst á Akureyri í apríl. Hún sást svo við höfn í Reykjanesbæ, áður en hún sigldi að Reykjavíkurhöfn þann 6. júní.
Snekkjan lagði af stað frá Reykjavíkurhöfn fyrr í kvöld. Samkvæmt vef Marine Traffic er stefnan tekin á Gíbraltar þar sem snekkjan mun sigla í höfn næsta föstudag.
Óhætt er að segja að snekkjan hafi vakið mikla athygli en hún einkennist af þremur háum möstrum. Mörgum þykir mikið til hennar koma, á meðan aðrir virðast ekki hafa smekk fyrir þessari dýru snekkju.