
Svo vel vildi til að einmitt á þeirri stundu var talsverður kraftur í gígnum. Þriggja manna áhöfn flugbátsins hefur væntanlega fengið magnaða sýn á gosið sem sendi frá sér gosstróka hátt yfir gígbarmana.

Áhöfn flugbátsins hafði ætlað sér að fljúga til Hellu í gær en neyddist til að bíða af sér lága skýjahæð í Keflavík sem hamlaði sjónflugi. Í morgun rofaði svo til og fór flugbáturinn í loftið laust fyrir klukkan ellefu. Eftir flugtak var stefnan tekin beint á eldstöðina og tóku flugmennirnir þar tvo hringi lágt yfir gosinu, í 700 til 1.100 feta hæð, áður en flogið var áfram til Rangárvalla.

Þegar komið var yfir hátíðarsvæðið á Helluflugvelli tóku flugmennirnir aukahring áður en lent var laust fyrir klukkan hálftólf. Þar verður báturinn til sýnis í dag. Af öðrum dagskrárliðum í dag má nefna listflugskeppni og sýningu kanadíska listflugmannsins Luke Penner. Þá er von á kanadískri P-3 Orion kafbátaleitarflugvél í lágflugi yfir svæðið.