Byssan er í raun af gerðinni Glock19 en starfsmenn Culper Precision hafa gert miklar breytingar á henni svo hún lítur út fyrir að vera gerð úr Lego-kubbum. Byssan er kölluð Block19
Culper Precision opinberaði byssuna í síðasta mánuði. Í Facebookfærslu um byssuna segir að þarna sé æskudraumur orðinn raunverulegur.
Fjölmiðlar hafa fjallað um byssuna og forsvarsmenn aðgerðahópa gegn skotvopnum í Bandaríkjunum hafa fordæmt hana harðlega. Þá hafa forsvarsmenn danska fyrirtækisins Lego sent bréf til Culper Precision og krafist þess að framleiðslu Block19 verði hætt hið snarasta.
Eins og segir í frétt Washington Post, skjóta þúsundir barna sig og önnur börn til bana fyrir mistök á ári hverju. Slíkum slysaskotum hefur farið fjölgandi, samhliða mikilli aukningu í sölu skotvopna í Bandaríkjunum.
Shannon Watts, sem leiðir samtökin „Mæður krefjast aðgerða“ deildi mynd af byssunni í síðustu viku og sagði ljóst að börn myndu deyja vegna hennar.
Review of the product from a commenter on the Firearm Blog: "This, if real, is the most irresponsible gun modification I have seen in a long time. Perfect fodder for the 'Everytown for Gun Safety' people. Not a help." https://t.co/T36lzybfhW
— Shannon Watts (@shannonrwatts) July 8, 2021
Áhugamenn um byssur í Bandaríkjunum virðast ekki sammála um það hve sniðug hugmynd Block19 er. Hve sniðugt það sé að láta skotvopn líta út fyrir að vera leikfang. Þó er ljóst að breytingarnar eru löglegar í allflestum ríkjum Bandaríkjanna.
Forsvarsmenn Culper Precision birtu í gær yfirlýsingu á Facebook þar sem þeir virðast sjálfir reiðir yfir reiðinni í þeirra garð. Þeir segjast hafa gert Block19 til að opna á umræðu um það þá gleði sem skotfimi og æfingar valdi.
Í yfirlýsingunni segir að starfsemi fyrirtækisins snúist um það að aðlaga byssur að persónuleikum eigenda þeirra og fólk hafi rétt á því að breyta byssum sínum eins og það vilji. Þá segir að ekkert megi gera í skotvopnaframleiðslu án þess að fólk noti það til að segja að byssur sé slæmar.
„Við erum þreytt á því að síðustu 30 til 40 ár hafi verið grafið hægt undan réttindum okkar í ótta við hvað öðrum sem hata okkur finnst um stjórnarskrárvarinn rétt okkar,“ segir í yfirlýsingunni.
„Í stað þess að lifa í ótta við raddir á samfélagsmiðlum ákváðum við að gefa út Block19 til að sýna fram á að það sé í lagi að eiga byssu og ekki vera klæddur í taktískar buxur á hverjum degi og það að skjóta úr byssum á ábyrgan hátt er mjög gaman.“