Síðastliðnar tíu mínútur hafa 214 bílar ekið um Sandskeið og 172 um Hellisheiði samkvæmt upplýsingum á vef Vegagerðarinnar.
Samkvæmt frásögn ökumanns sem er á þessari leið hefur bíll verið við bíl alla leiðina úr Reykjavík og á Selfoss, eins og sjá má af myndunum sem fylgja.
Margir hafa líklega ákveðið að taka sig til og elta veðrið út fyrir borgarmörkin enda sól og blíða á suðvesturhorni landsins, og víðast hvar á landinu í raun.
Lögreglumaður á Selfossi segir í samtali við fréttastofu að honum þyki ekki ólíklegt að mikil umferð sé um umdæmið miðað við veðráttuna og umferðarþungann síðustu daga. Umferðin hafi verið mjög þétt í gær og hafi verið nær óslitin röð á milli Selfoss og Hveragerðis meginhluta dagsins. Ekki sé ólíklegt að sama sé uppi á teningunum núna.