Saksóknarar höfðu farið fram á átján mánaða fangelsisdóm yfir Paul Allard Hodgkins, sem ruddist inn í þingsalinn ásamt fleirum, með fána Donalds Trump á lofti. Hann var sakaður um að hafa ógnað bandarísku lýðræði.
Paul Allard er 38 ára gamall kranaverkamaður. Hann lýsti yfir sekt sinni í síðasta mánuði fyrir að reyna að koma í veg fyrir opinbera athöfn en hann var ekki sakaður um að ráðast á neinn eða valda skemmdum.
Dómarinn sem kvaddi upp dóminn yfir Paul Allard í dag sagði hann hafa spilað stórt hlutverk í einu versta atviki í sögu Bandaríkjanna.
„Þetta voru ekki mótmæli í nokkrum skilningi. Þetta var árás á lýðræðið,“ sagði dómarinn. „Hún skildi eftir sig blett sem mun sitja fastur á landinu í áraraðir.“
Um 140 særðust í átökunum, þann 6. janúar síðastliðinn. Einn var skotinn til bana og þrír aðrir létust eftir átökin.
Fleiri en fimm hundruð hafa verið ákærðir vegna árásarinnar og má búast við að dómurinn í dag sé fordæmisgefandi fyrir mörg hinna málanna sem á eftir að dæma í.