Túnisbúinn Ahmed Hafnaoui átti frábært sund í úrslitum 400 metra skriðsunds í Japan í nótt. Eftir að hafa verið áttundi í undanrásum kom hann, sá og sigraði í úrslitasundinu þar sem lengi vel var útlit fyrir að ungi maðurinn ætlaði að setja heimsmet.
Það dró aðeins af honum í seinni hluta 400 metra sundsins en þó kom hann fyrstur í bakkann á tímanum 3:43,36 mínútum, 16 hundraðshlutum úr sekúndu á undan Ástralanum Jack McLoghlin sem hlaut silfur.
Hafnaoui er aðeins fjórði Túnisinn til að vinna til gullverðlauna á Ólympíuleikunum og annar sundmaðurinn til þess, á eftir Oussama Mellouili sem hlaut gull í 1500m skriðsundi karla í Peking 2008.
Missti af Ríó en vann á heimavelli

Í sömu grein í kvennaflokki vann hin japanska Yui Ohashi nokkuð öruggan sigur er hún kom í mark á 4:32,08 mínútum. Hinar bandarísku Emma Weyant og Hali Flickinger komu næstar og hlutu silfur og brons.
Ohashi varð veik í aðdraganda leikanna í Ríó 2016 og sagði í kjölfar sundsins að hún hefði unnið að þessum draumi undanfarin fimm ár, sérstaklega sætt væri að vinna gullið á heimavelli.
Fyrsta heimsmetið til þessa

Sveit Ástralíu í 4x100 metra skirðsundi setti þá fyrsta heimsmet leikanna í Tókýó í nótt. Emma McKeon, Meg Harris og systurnar Bronte og Cate Campbell mönnuðu sveit Ástralíu sem synti á 3:29,69 mínútum og bættu fyrra með 36 hundraðhluta úr sekúndu.
Ástralía átti fyrra met, sem sett var á Samveldisleikunum 2018. Kanada hlaut silfur í greininni en Bandaríkin brons.