Sigurður Ingi var í Bítinu á Bylgjunni í morgun þar sem hann ræddi möguleg næstu skref stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins. Núverandi samkomutakmarkanir gilda til 13. ágúst næstkomandi en í gær sagði sóttvarnalæknir að stjórnvöld þyrftu að taka ákvörðun um hvort grípa ætti til harðari aðgerða eða ekki þegar núverandi takmarkanir renna úr gildi.
Í Bítinu sagði Sigurður Ingi að nú væru stjórnvöld meðal annars að meta áhrifin af því að stór hluti Íslendinga væri bólusettur.
„Áhrifin eru nokkuð augljóslega segja sérfræðingar okkur að bólusetningarnar eru að verja okkur kannski 90 prósent fyrir veikindum en eitthvað niður í 60-70 prósent fyrir sýkingum. Við tókum þá ákvörðun á Egillstöðum að vera með, á grundvelli tillagna sóttvarnalæknis eins og áður, almennar aðgerðir en einmitt horfa kannski meira á veikindin en fjölda smita, það er rétt. Við erum á krossgötum,“ sagði Sigurður Ingi.
Undanfarið hefðu stjórnvöld fundað með sérfræðingum í sóttvörnum og fleiri aðilum í samfélaginu til að undirbúa næstu skref.
„Við höfum verið að taka okkur ákveðna daga núna. Samtöl við sérfræðinga, bæði í sóttvörnum, læknisfræði, smitvörnum og öllu slíku, sagði Sigurður Ingi. En líka við aðra hagaðila í samfélaginu og munum halda því áfram í dag og á morgun,“ sagði Sigurður Ingi.
Á meðan safnist upp upplýsingar sem hægt sé að nýta og að tillögur geti fæðst um það hvernig hægt sé að komast út úr því að „vera í niðurbælingu á veiru í óbólusettu landi yfir í það að lifa með veiru í bólusettu landi,“ líkt og Sigurður Ingi orðaði það.
Hlusta má á viðtalið í heild sinni hér fyrir ofan.