Þetta segir Tom Wenseleers líffræðingur og líftölfræðingur við University of Leuven í Belgíu.
Það vakti nokkra athygli þegar þess var getið í skýrslu sem lak frá Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna (CDC) að delta væri jafn smitandi og hlaupabóla en Wenseleers segir að um misskilning hafi verið að ræða.
Delta-afbrigðið sé engu að síður mjög smitandi en svokallaður R-stuðull afbrigðisins sé á bilinu sex til sjö, á meðan R-stuðull upphaflega afbrigðis kórónuveirunnar var þrír.
R-ið stendur fyrir „reproduction number“ en talan lýsir þeim meðalfjölda sem einstaklingur með tiltekinn smitsjúkdóm smitar út frá sér þegar allt samfélagið er útsett.
Þetta þýðir að einstaklingur sem smitaðist af fyrsta afbrigði kórónuveirunnar smitaði að meðaltali þrjá, sem smituðu þrjá, sem aftur smituðu þrjá. Þannig hefðu smitin í þessu dæmi, án samfélagslegra sóttvarnaaðgerða, orðið 27 á skömmum tíma.
Samkvæmt sömu útreikningum hefðu 343 á sama tíma ef um delta-afbrigðið væri að ræða.
Örlítil breyting á smitstuðlinum getur því haft töluverð áhrif til góðs eða ills.
Bólusetning hjálpar, segir Wenseleers, en bólusettir geta smitast og sömuleiðis smitað aðra. Hann segir allar líkur á því að þeir sem ekki þiggja bólusetningu smitist af veirunni á næstu mánuðum.