Nokkuð tómlegt var um að litast á nýnemadegi skólans í dag, enda ekki mælt með að fólk safnist saman í stórum hópum. Þrátt fyrir það var gott hljóð í þeim nýnemum sem fréttastofa ræddi við og þeir horfa spenntir fram á veginn, hvað sem mögulegri fjarkennslu og áhrifum á félagslífið líður.
„Við náttúrulega vorum að klára menntaskóla og fengum ekki neitt félagslíf á þriðja ári. Þannig að ég vona að þetta fari að skána mjög fljótt og þetta breytist,“ segir Hákon Logi, nýnemi í hugbúnaðarverkfræði.
Hann segir að þrátt fyrir mögulegar takmarkanir á félagslíf nemenda sé hann bjartsýnn á að þeir geti gert sér glaðan dag saman í vetur.
Hallgeir Kári, nýnemi í tölvunarfræði, segist spenntur fyrir félagslífinu og náminu, þó nokkurrar óvissu gæti um hvernig því öllu verður háttað.
„Smá stressandi. Maður veit ekkert hvernig þetta verður allt og þetta á allt eftir að koma í ljós,“
Hann er ekki sérlega spenntur fyrir möguleikanum á fjarkennslu.
„Það væri miklu betra að hafa nám í skólanum en ef eina staðan er að hafa fjarnám þá verðum við bara að vinna með það.“
Sunneva, nýnemi í hugbúnaðarverkfræði, er jákvæð þó hún telji að að faraldurinn kunni að hafa áhrif á skólagönguna.
„Ég held samt sem áður að við séum orðin meðvitaðri um stöðuna í samfélaginu og held þar af leiðandi að við munum læra að sinna félagslífi í þessum takmörkunum, eða bara í heimsfaraldrinum yfir höfuð,“ segir hún og kveðst spennt að byrja í náminu.“