Palaú er lítið eyríki í Kyrrahafi en hinir smituðu voru tveir ferðmenn sem voru að koma frá eyjunni Guam. Þeir og allir þeir sem komu nálægt þeim hafa verið skipaðir í einangrun.
Mikil hræðsla greip um sig meðal eyjaskeggja þegar fregnirnar bárust en heilbrigðisráðuneyti landsins tilkynnti það í dag að engar innanlandstakmarkanir verði settar á þrátt fyrir þessa gríðarlegu fjölgun smita.
Meira en áttatíu prósent þjóðarinnar, sem nemur þó aðeins átján þúsund manns, er fullbólusett gegn veirunni. Forseti landsins, Surangel Whipps, sagði í dag að eyjan væri „ekki lengur Covid-laus en nú Covid-örugg.“
Þar til í dag var Palaú eitt fjórtán ríkja í heiminum sem tekist hefur að koma alveg í veg fyrir kórónuveirusmit innan sinna landamæra, samkvæmt gögnum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Tvö þeirra landa eru þó Norður-Kórea og Túrkmenistan og hefur það verið harðlega dregið í efa að smitleysi ríkjanna standist skoðun.