Stúlkan tilheyrði Dalit-stéttinni, en meðlimir hennar eru einnig kallaðir „hinir ósnertanlegu“.
Morð stúlkunnar er sagt hafa átt sér stað þann fyrsta ágúst. Mennirnir voru handteknir degi seinna og ákærðir á laugardaginn, samkvæmt frétt Times of India.
Í yfirlýsingu frá innanríkisráðuneyti Indlands segir að ákvörðun um ákæru hafi verið tekin í kjölfar rannsóknar og byggi á um 400 blaðsíðna skýrslu þar sem fram komi að næg sönnunargögn séu til að sakfella mennina. Ráðuneytið hefur sett mál í forgang.
Mennirnir verða færðir fyrir dómara á þriðjudaginn og gætu þeir verið dæmdir til dauða, verði þeir fundir sekir.
Í frétt CNN segir stúlkan hafi verið send til líkbrennslu til að sækja vatn. Skömmu seinna hafi prestur hringt í móður stúlkunnar og sagt hana látna. Presturinn mun hafa sagt henni að stúlkan hefði orðið fyrir raflosti. Hann og þrír aðrir starfsmenn líkbrennslunnar þrýstu á móðurina og sannfærðu hana um að brenna lík stúlkunnar strax og blanda lögreglunni ekki í málið.
Íbúar þorpsins sem er í útjaðri Delí, brugðust reiðir við þessum fregnum og mótmæltu við líkbrennsluna. Í kjölfarið voru mennirnir fjórir handteknir. Eins og áður hefur komið fram voru þeir ákærðir á laugardaginn.
Fellt niður en enn áhrifamikið
Stéttakerfi Indlands var formlega fellt niður árið 1950 en það spilar þó enn stóra rullu í landinu. Í einföldu máli sagt, þá flokkar kerfið Indverja sem fæðast innan hindúatrú í stétt við fæðingu. Það mótar stöðu þeirra í samfélaginu, hverjum þeir mega giftast og hvaða störf þeir mega vinna.
Í frétt CNN segir að meðlimir Dalit-stéttarinnar séu um 201 milljón af 1,3 milljarði Indverja. Þeir séu meðal þeirra verst settu í stéttakerfinu og verði fyrir miklum fordómum, árásum og kynferðislegu ofbeldi.
Mikið sé um að kynferðisofbeldi gegn konum í Dalit-stéttinni hafi leitt til reiði í indversku samfélagi undanfarin ár. Í fyrra hafi hópnauðgun og morð nítján ára konu leitt til mótmæla. Það hafi verið í kjölfar þess að þrettán ára stúlku hafi verið nauðgað og hún myrt mánuði áður.