Lið Dusty er ríkjandi stórmeistari og átti ekki í vandræðum með að slá út Rafmos og XY um síðustu helgi á leið sinni í úrslitaleikinn. Dusty tapaði ekki einu korti á leiðinni og virðist illviðráðanlegt.
Andstæðingar Dusty eru hins vegar engir nýgræðingar; lið Vallea. Þeir unnu Kórdrengi í 8-liða úrslitum, 16-12 og 16-10, en lentu síðan í hörkuviðureign gegn KR. Eftir að hafa unnið fyrsta leikinn tapaði Vallea í framlengingu í þeim næsta, og var undir í hálfleik í oddaleiknum en vann hann að lokum 16-12 og komst í úrslit.
Í liði Vallea eru keppendur sem gerðu garðinn frægan í fyrsta Counter-Strike leiknum og hafa spilað til úrslita reglulega á síðustu fimmtán árum. Andstæðingar þeirra eru flestir rúmum áratug yngri en hafa eins og fyrr segir titil að verja.
Útsendingin á morgun hefst klukkan 18 með skemmtilegum sýningarleik og úrslitaleikurinn sjálfur hefst svo klukkan 20.